31.1.2009 | 15:27
Hvað má betur fara?
Þetta er athygliverð niðurstaða og afskaplega mikilvægt fyrir Íslendinga að huga að því hvernig við getum staðið okkur betur. Þegar tölurnar eru skoðaðar þá verjum við miklum peningum til vísinda- og þróunar (R&D), en þetta skilar sér lítið í raunverulegri nýsköpun. Samtök atvinnulífsins hafa fjallað um þetta á heimasíðu sinni og segja m.a. þetta (sjá: http://www.sa.is/frettir/almennar/nr/4388/ ):
"Á Íslandi er um 90% af opinberu fé til rannsókna og þróunar ráðstafað beint til þeirra sem fá fé á fjárlögum, s.s. háskóla og rannsóknastofnana. Á Norðurlöndum er þetta hlutfall 60-70%. Af þeim 10% sem renna í samkeppnissjóði fer um helmingur til sjóða sem fyrst og fremst úthluta til háskóla og stofnana. Það er því aðeins um 5% af þessu fjármagni sem er úthlutað með verðmætasköpun að leiðarljósi.
Stjórnvöld hafa þó verið að bregðast við þessari stöðu mála enda hefur hún verið ljós um hríð. Vísinda- og tækniráð hefur ályktað um að við úthlutun styrkja úr samkeppnissjóðum skuli leggja áherslu á verðmætasköpun. Leggja verður áherslu á hagnýtt gildi við úthlutun styrkja og beina rannsóknum háskólanna almennt inn á þau svið sem nýtast atvinnulífinu. Háskólarnir verða að tengjast betur við atvinnulífið og brjóta niður múra sem til staðar eru. Takist það verður betur ljóst en áður hve mikivægt er að bæta menntun og auka rannsóknir í háskólunum og veita til þeirra nauðsynlegu fjármagni. Lofsvert er að í fjárlögum þessa árs var ákveðið að halda fast við að auka framlög til samkeppnissjóða þótt verðbólgan éti upp stóran hlut af þeirri aukningu."
Fyrri málsgreinin er að mínu mati grundvallaratriði í þessu máli - við veitum fjármagni að stærstum hluta beint í gegnum fjárlög til stofnana. Það er hárrétt hjá SA að benda á þetta atriði, en það hefur raunar verið baráttumál fjölmargra vísinda- og fræðimanna í mörg ár að auka verði hlutfall R&D peninga sem fara í gengnum samkeppnissjóði beint til vísinda- og tækniþróunarverkefna. Nú á tímum kreppu og þeirrar naflaskoðunar sem óhjákvæmilega þarf að eiga sér stað, þá er þetta afskaplega mikilvægt atriði. Þetta kann að verða sársaukafullt að breyta þessu hlutfalli og hagsmunaaðilar innan háskóla og rannsóknarstofnanna munu berjast hart gegn slíkri endurskoðun. Það var afksaplega áhugavert að heyra skoðanir vísinda-og fræðimanna á nýlegum fundi Vísinda-og tækniráðs um stefnu til næsta ára. Þar var ótrúlegur samhljómur þeirra sem framsögu höfðu. Við verðum að auka fjármagn til samkeppnissjóða.
En hvað þýðir þetta í reynd? Við verjum í gegnum bein framlög verulegu fjármagni til R&D. Sennilega er stór hluti þeirrar fjárhæðar launakostnaður. En vegna skorts á fjármagni í samkeppnissjóðina þá sitja þessir fræði- og vísindamenn auðum höndum og nýtast ekki. Þetta er náttúrulega sóun á hugviti og ekkert annað. Þetta veldur því líka að við getum ekki byggt upp vinnuumhverfi ungra vísindamanna (doktorsnemar og nýdoktorar (post-doctoral fellows)) þar sem þeir eru víðast hvar fjármagnaðir í gengum tímabundnar stöður sem styrktar eru í gegnum slíka samkeppnissjóði. Sem sagt við höfum fjölmarga reynda vísindamenn í föstum stöðum í háskólum og rannsóknarstofnunum en við fjársveltum vísindaverkefni þeirra með því að veita ekki peningum í vísindasjóðina.
Seinni málgreinin á vefsíðu SA sem ég vitna í hér að ofan er þó að mínu mati ákaflega varhugaverð. Þeir leggja á herslu á að háskólar og vísindaverkefni þurfi í auknu mæli að beinast beint að verðmætasköpun. Hér er ég ósammála þeim hjá SA. Með þessu er ég ekki að segja að við eigum ekki að styðja myndarlega við tækniþróun - við eigum að gera það tvímælalaust. En rannsóknarsjóður (sem leggur fyrst og fremst áherslu á vísindarannsóknir) á að hafa ÞEKKINGASKÖPUN sem meginmarkmið. Öflug grunnvísindi eru forsenda nýsköpunar og skammsýn sjónarmið sem segja að við eigum einvörðungu að styðja vísindi sem hafa verðmætasköpun að markmiði sínu leiða ekki til verðmætasköpunar til langframa.
Það er fjölmargt annað sem má betur fara í okkar vísinda- og nýsköpunarmálum. Dæmi er mælikvarðar sem m.a. HÍ notar til að meta árangur (punktakerfið alræmda) sem hreint og beint vinnur gegn góðum vísindum (magn er allt........ en gæði ekkert). En þrátt fyrir allt þetta þá erum við á réttri leið. Ef að Katrín Jakobsdóttir tekur við málaflokknum þá er ég bjartsýnn á að hún sýni þessum málaflokki mikinn áhuga (Þorgerður Katrín gerði það raunar líka í öllum meginatriðum). En brettum nú upp ermarnar og tökum á þessum málaflokki á málefnalegan og uppbyggilega hátt. Nýja Ísland hefur ekki efni á öðru!Nýsköpun Íslendinga í 14. sæti í Evrópu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Vísindapólitík
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (15.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Það sem í fyrsta lagi mætti betur fara er að fá fleiri í verk- og tæknimenntun og færri í félags- og hugsvísindagreinum og það þarf að byrja alveg í grunnskólanum að vekja áhuga barna á þessum sviðum.
Ívar Kristleifsson (IP-tala skráð) 31.1.2009 kl. 18:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.