Færsluflokkur: Bloggar

Ætti ekki fréttin að vera úttekt Indriða - ekki viðbrögð Samtaka Iðnaðarins

Indriði Þorláksson birtir frábæra úttekt á rýrum þjóðartekjum okkar af álverum og fréttin hér á Mbl er sú að birta einvörðungu viðbrögð Samataka Iðnaðarins.  Það er auðvitað alveg kristlatært að skoðanir þess góða fulltrúa er eins og annarra hagsmunsamtaka beinlínis til þess gerð að draga úr vægi samantektarinnar  -ekki að fjalla um hana á hlutlægan hátt.

Bjarni segir það vera sérlega jákvætt hversu ítarleg skýrslan sé - en er samt ósáttur við það sem Indriði segir ekki - fremur en það sem Indriði segir. En síðan heldur hann áfram og gagnrýnir ýmislegt en grundvallaratriðin standa semt óhögguð. Beinar tekjur ríkisins eru sáralitlar af álverum og orkusölu til þeirra. Sumt í gagnrýninni Bjarna er beinlínis villandi. Hann gagnrýnir Indirða fyrir að nota gamlar tölur, þ.e. frá 2007 en Indriði er að nota opinerar upplýsingar, m.a. um skatttekjur og uppgjör og nýrri tölur eru ekki til. Indriði passar sig alveg sérstaklega að taka fram hver sé ávinningur af hverjur álveri (ekki heildarávinningi) - og því ekkert sem bendir til að að ávinningur af hverju og einu álveri hafi aukist milli ára.

Bjarni gagnrýnir einnig að Indriði horfi ekki til tekna sem hljótist af umsvifum af þeim miklu framkvæmdum sem fylgi uppbyggingu í áliðnaðinum, framkvæmdum sem vegi þungt þegar slaki er í hagkerfinu, eins og nú. En bíddu nú við......ég hélt að að framkvæmdirnar væru nú að mestu yfirstaðnar og þær hefðu einmitt átt sér stað í íslensku hagkerfi þegar við þurftum ekkert á auknum framkvæmdum að halda (í miðri þennslu!!).

Bjarni talar líka um sprotafyrirtæki sem hafi orðið til vegna stóriðjuuppbyggingar. Þetta hljómar dálítið sérkennilega. Gengisþróun, launaþennsla og aðrir þættir sem fylgdu stóriðjuuppbyggingu síðasta áratugar hefur einmitt unnið gegn uppbyggingu sprotafyrirtækja. Nýlegar kannanir hafa sýnt að eftir stöðugan vöxt hátækni í hlutdeilt íslenskrar verðmætasköpunar, þá hætti þessi þróun varð raunar öfug hér á síðustu árum. Hátæknin hefur dregist aftur úr - sennilega vegna efnahagsstefnu stjórnvalda. 

Það sem stendur þó upp úr er þetta; úttekt Indriða virðist standa algerlega óhögguð eftir þessa "ekki-frétt".


mbl.is Vanmetur mikilvægið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað má betur fara?

Þetta er athygliverð niðurstaða og afskaplega mikilvægt fyrir Íslendinga að huga að því hvernig við getum staðið okkur betur. Þegar tölurnar eru skoðaðar þá verjum við miklum peningum til vísinda- og þróunar (R&D), en þetta skilar sér lítið í raunverulegri nýsköpun. Samtök atvinnulífsins hafa fjallað um þetta á heimasíðu sinni og segja m.a. þetta (sjá: http://www.sa.is/frettir/almennar/nr/4388/ ):

"Á Íslandi er um 90% af opinberu fé til rannsókna og þróunar ráðstafað beint til þeirra sem fá fé á fjárlögum, s.s. háskóla og rannsóknastofnana. Á Norðurlöndum er þetta hlutfall 60-70%.  Af þeim 10% sem renna í samkeppnissjóði fer um helmingur til sjóða sem fyrst og fremst úthluta til háskóla og stofnana.  Það er því aðeins um 5% af þessu fjármagni sem er úthlutað með verðmætasköpun að leiðarljósi.

Stjórnvöld hafa þó verið að bregðast við þessari stöðu mála enda hefur hún verið ljós um hríð.  Vísinda- og tækniráð hefur ályktað um að við úthlutun styrkja úr samkeppnissjóðum skuli leggja áherslu á verðmætasköpun Leggja verður áherslu á hagnýtt gildi við úthlutun styrkja og beina rannsóknum háskólanna almennt inn á þau svið sem nýtast atvinnulífinu. Háskólarnir verða að tengjast betur við atvinnulífið og brjóta niður múra sem til staðar eru. Takist það verður betur ljóst en áður hve mikivægt er að bæta menntun og auka rannsóknir í háskólunum og veita til þeirra nauðsynlegu fjármagni. Lofsvert er að í fjárlögum þessa árs var ákveðið að halda fast við að auka framlög til samkeppnissjóða þótt verðbólgan éti upp stóran hlut af þeirri aukningu."

Fyrri málsgreinin er að mínu mati grundvallaratriði í þessu máli - við veitum fjármagni að stærstum hluta beint í gegnum fjárlög til stofnana. Það er hárrétt hjá SA að benda á þetta atriði, en það hefur raunar verið baráttumál fjölmargra vísinda- og fræðimanna í mörg ár að auka verði hlutfall R&D peninga sem fara í gengnum samkeppnissjóði beint til vísinda- og tækniþróunarverkefna. Nú á tímum kreppu og þeirrar naflaskoðunar sem óhjákvæmilega þarf að eiga sér stað, þá er þetta afskaplega mikilvægt atriði. Þetta kann að verða sársaukafullt að breyta þessu hlutfalli og hagsmunaaðilar innan háskóla og rannsóknarstofnanna munu berjast hart gegn slíkri endurskoðun. Það var afksaplega áhugavert að heyra skoðanir vísinda-og fræðimanna á nýlegum fundi Vísinda-og tækniráðs um stefnu til næsta ára. Þar var ótrúlegur samhljómur þeirra sem framsögu höfðu. Við verðum að auka fjármagn til samkeppnissjóða.

En hvað þýðir þetta í reynd? Við verjum í gegnum bein framlög verulegu fjármagni til R&D. Sennilega er stór hluti þeirrar fjárhæðar launakostnaður. En vegna skorts á fjármagni í samkeppnissjóðina þá sitja þessir fræði- og vísindamenn auðum höndum og nýtast ekki. Þetta er náttúrulega sóun á hugviti og ekkert annað. Þetta veldur því líka að við getum ekki byggt upp vinnuumhverfi ungra vísindamanna (doktorsnemar og nýdoktorar (post-doctoral fellows)) þar sem þeir eru víðast hvar fjármagnaðir í gengum tímabundnar stöður sem styrktar eru í gegnum slíka samkeppnissjóði. Sem sagt við höfum fjölmarga reynda vísindamenn í föstum stöðum í háskólum og rannsóknarstofnunum en við fjársveltum vísindaverkefni þeirra með því að veita ekki peningum í vísindasjóðina.

Seinni málgreinin á vefsíðu SA sem ég vitna í hér að ofan er þó að mínu mati ákaflega varhugaverð. Þeir leggja á herslu á að háskólar og vísindaverkefni þurfi í auknu mæli að beinast beint að verðmætasköpun. Hér er ég ósammála þeim hjá SA. Með þessu er ég ekki að segja að við eigum ekki að styðja myndarlega við tækniþróun - við eigum að gera það tvímælalaust. En rannsóknarsjóður (sem leggur fyrst og fremst áherslu á vísindarannsóknir) á að hafa ÞEKKINGASKÖPUN sem meginmarkmið. Öflug grunnvísindi eru forsenda nýsköpunar og skammsýn sjónarmið sem segja að við eigum einvörðungu að styðja vísindi sem hafa verðmætasköpun að markmiði sínu leiða ekki til verðmætasköpunar til langframa.

Það er fjölmargt annað sem má betur fara í okkar vísinda- og nýsköpunarmálum. Dæmi er mælikvarðar sem m.a. HÍ notar til að meta árangur (punktakerfið alræmda) sem hreint og beint vinnur gegn góðum vísindum (magn er allt........ en gæði ekkert). En þrátt fyrir allt þetta þá erum við á réttri leið. Ef að Katrín Jakobsdóttir tekur við málaflokknum þá er ég bjartsýnn á að hún sýni þessum málaflokki mikinn áhuga (Þorgerður Katrín gerði það raunar líka í öllum meginatriðum). En brettum nú upp ermarnar og tökum á þessum málaflokki á málefnalegan og uppbyggilega hátt. Nýja Ísland hefur ekki efni á öðru!
mbl.is Nýsköpun Íslendinga í 14. sæti í Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nánari útskýring á fréttinni

Eins og stundum gerist þegar fréttir sem þessar birtast er að erfitt er að átta sig á hvað var raunverulega gert í þessari merku rannsókn. Ég skal reyna að skýra það út fyrir ykkur.

Það muna allir eftir Dolly. Þar var framkvæmdur kjarnaflutningur þar sem kjarni úr fullþroska frumu úr "móður" (eða "móður/föður", einungis eitt foreldri!!) var settur í ófrjóvgað egg (í stað kjarnans sem fyrir var). Við þetta hélt eggfruman að hún heðfi frjóvgast og hóf að mynda fósturvísi. Fósturvísirinn var síðan settur í leg móðurinnar sem gékk með fóstrið og fæddi síðan fullburða Dolly sem innihélt nákvæmlega (eða því sem næst nákvæmlega eins) erfðaefni og "móðirinn" hafði. Sem sagt Dollý var einræktuð og má þannig líkja við eineggja tvíbura fyrir utan að tvíburasystir hennar var einnig "móðir" hennar. Þetta er kallað einræktun í æxlunartilgangi ("therapeutic cloning"). Slík einræktun í æxlunartilgangi hefur verið framkvæmd í allmörgum dýrategundum (m.a. kettir, hundar, kýr, mýs o.fl.) Þetta hefur hins ekki gengið í neinum apategundum og auðvitað aldrei verið reynt í mannfólki.  

Þið munið kannski líka eftir kóreska vísindamanninum Hwang sem þóttist hafa einræktað stofnfrumur úr mönnum en reyndist hafa stytt sér leið (m.ö.o. svindlað). Það sem hann þóttist hafa gert var að einrækta í lækningarlegum tilgangi (ekki það sama og að einrækta í æxlunartilgangi). Leyfir mér að skýra út hvað það er, því að það er ákkúrat það sem nú hefur tekist að gera í ættingjum okkar, prímatategundinni rhesus macaque og lýst er í umræddri vísindagrein. Rétt eins og þegar einræktun er gerð í æxlunartilgangi þá er einræktun í lækningartilgangi gerð með því að flytja kjarna úr fullþroska frumu inn í ófrjóvgað egg og við þetta telur eggið að frjóvgun hafi átt sér stað. Frjóvgaða eggið getur nú myndað eitthvað sem líkist fósturvísi. Í stað þess að taka þennan fósturvísi og koma honum fyrir í legi þá er fósturvísirinn notaður til að búa til það sem við köllum fósturstofnfrumulínu. Slík fósturstofnfrumulína inniheldur nú erfðaefni þess apa sem gaf erfðaefnið úr fullþroska frumunni. Fósturstofnfrumulínur geta ekki myndað fóstur en menn binda miklar vonir við fósturstofnfrumulínur þar sem þær geta hugsanlega nýst í framtíðinni til að gera við skemmda vefi.

Sem sagt, nú hefur tekist að að búa til fósturstofnfrumulíu með einræktun (m.ö.o. einræktun í lækningarlegum tilgangi) í fyrsta skipti í prímata. Við erum prímatar eins og ýmsir frændur okkar í apafjölskyldunni. Hwang þóttist hafa gert þetta í mönnum en svo reyndist ekki vera. Nú telja sem sagt vísindamenn sig hafa tekist þetta, en munum að þetta var ekki auðhlaupið. Það þurfti gífurlegt magn af eggjum (yfir 300) til að búa til eina slíka frumulínu og því er mikil vinna framundan að skilja af hverju þetta er svona erfitt í okkur prímötunum. En þetta er spennandi og þarna bætist við eitt lítið púsl í þá stóru mynd sem stofnfrumurannsóknir eru að mála þessa dagana.


mbl.is Vísindamenn segjast hafa einræktað fósturvísi úr apa í fyrsta sinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vísindastefna ríksistjórnarinnar og efndir!

Hún er skrítin þessi pólitík. Maður hefði ætlað að eitthvað samhengi væri milli flokka og stefnu annars vegar og efnda og loforða hins vegar. Flokkar standa fyrir stefnu og síðan eiga efndir og loforð að endurspegla þessi stefnumið flokksins. Stundum finnst manni eins og það sé ansi hreint langt frá því að íslensk pólitík hafi náð þeim þroska að geta staðið við þetta einfalda prinsipp: Stefna stendur fyrir það sem flokkurinn vill gera!! Við höfum núna hrópandi dæmi um þetta í aðdraganda kosninga.Sjálfstæðisflokkurinn hefur einn flokka haft skýra vísindastefnu. Henni er lýst á skeleggann hátt í ályktun flokksins í vísindamálum á síðasta landsfundi og hér emur orðréttur kafli úr þessaari ályktun: “Samkeppni um opinbert fjármagn til rannsókna og tækniþróunar hvetur til skilvirkni og skilgreinir tak­mark og tilgang þeirra betur en fastar fjárveitingar til opinberra stofnana. Þó eru níu af hverjum tíu krón­­um af opinberum rannsóknafjárveitingum bein framlög til háskóla og stofnana. Landsfundur telur mikilvægt að auka verulega hlut samkeppnisfjár í opinberum rannsókna­fjárveitingum þannig að keppt sé um rannsóknafjárveitingar samkvæmt mati á gæðum rannsókna­verkefna og væntingum um árangur og bestu verkefnin hverju sinni hljóti styrk. Tryggja þarf að samkeppnissjóðir séu nægilega sterkir til að hafa það vogarafl sem til þarf.” Þetta er skelegg og skýr stefna og ákaflega vel orðuð. Síðan þessi ályktun flokksins var samþykkt hefur Vísinda- og tækniráð undir forystu forsætisráðherra, Geirs Haarde samþykkt stefnumótun fyrir árin 2006-2009. Þar segir orðrétt um fjármögnun vísinda- og tækniþróunar: “Vísinda- og tækniráð hvetur til þess að hækkun beinna fjárveitinga til rannsókna renni að stærstum hluta til samkeppnissjóða og áætlana sem úthluta fé á grundvelli umsókna og faglegs mats.” Er þetta ekki nokkuð augljóst mál. Sjálfstæðisflokkurinn og ríksistjórnin undir forystu þessa flokks hefur skýra stefnu í því hvernig á stuðla að bættum vísindum á Íslandi. Nú kemur að efndunum. Frá því þessi skýra stefna hefur verið samþykkt bæði í flokknum og í ríkisstjórn þá hefr verið stigið eitt risaskref í framkvæmd þessarar vísinda- og tæknistefnu. Þetta skref er samingur Menntamálaráðherra við Háskóla Íslands. Aukið fjármagn til vísindarannsókna við HÍ er forsenda og krafa sem vísindasamfélagið stendur einhuga að baki. En hvað segir stefna flokksins og ríksistjórnarinnar? Ég ætla ekki að endurtaka það sem ég “kvóteraði” hér að ofan! Stefnan er skýr og skilmerkileg – fjármagn til vísindarannsókna við HÍ (eins og við aðrar stofnanir) er best nýtt vísindunum til framdráttar ef þeim er úthlutað gegnum opinbera samkeppnissjóði. Er ekki menntamálaráðherra komin í beina mótsögn við stefnu eigin flokks og ríkisstjórnar? Hæstvirrtur ráðherra kemur síðan fram með ásakanir um að pólitíkus sem dirfist að benda ráherranum á að það hefði verið affærasælla að efla frekar samkeppnissjóðina að þessi pólitíkus sé á móti HÍ. Ég verð nú bara að segja – hún er skrítin þessi pólitík. Þórunn Sveinbjarnadóttir frá Samfylkingunni, flokki sem því miður hefur hingað til ekki haft skýra stefnu í þessum málaflokki skrifaði góða stutta grein í Fréttablaðið um þennan sérkennilega samning Menntamálaráðherra og HÍ (sjá: http://www.visindi.blog.is/blog/visindi/entry/107587/). Í sérkennilegu svari menntamálaráðherra reynir hún að klóra í bakkann (http://www.visindi.blog.is/blog/visindi/entry/109067/).  Hún bendir á að samkepnnisjóðir hafi verið efldir - raunar tvöfaldaðir – sem ekki er lítið. En við skulum líta á tölur. Það er rétt að samkeppnissjóðir hafa verið tvöfaldaðir. Þeir fóru úr næstum engu í eitthvað pínulítið. Rannsóknarsjóður, stærsti einstaki sjóður til grunnrannsókna er núna 600 milljóni á ári. Allir samkeppnissjóðirirnir hljóða upp á 1,5 milljarð á ári. Það er með þessar tölur að leiðarljósi sem sjálfstæðisflokkurinn skrifaði vísindaályktun sína á síðasta landsfundi (ekki gömlu tölurnar fyrir tvöföldun þessara sjóða). Það var í ljósi þessara talna eftir hækkun sem Vísinda- og tækniráð setti stefnu sína sem útlistuð var hér að ofan. Menntamálaráherra ræðst þannig beint á eigin stefnu þegar hún ásakar þá sem hefðu frekar viljað sjá hluta af fjármagninu sem bundið er í Háskólasamningnum renna í samkeppnissjóðina um að vera á móti HÍ. Hvílíkur útúrsnúningur er þetta. Samkeppnissjóðirnir eru þarna til að útdeila peningunum til vísindamanna. Samningurinn við HÍ er til að styrkja þessa sömu vísindamenn. Telur Menntamálaráðherra að peningarnir skili sér betur til þeirra vísindamanna sem best standa sig ef að þeir renna í gegnum stjórnkerfi HÍ fremur en vera útdeilt beint þeirra vísindaverkefna sem best eru talin að vísindamönnum sjálfum sem ráðleggja um úthlutun úr samkepnnissjóðunum? Ef að menntamálaráðherra telur svo vera þá óska ég þess að hún gangi úr sjálfstæðisflokknum eða að næsti landsfundur flokksins samþykki stefnu sem hljóðar einhvern vegin svona: “Þrátt fyrir að samkeppni um opinbert fjármagn til rannsókna og tækniþróunar hvetji til skilvirkni og skilgreinir tak­mark og tilgang þeirra betur en fastar fjárveitingar til opinberra stofnana og þrátt fyrir að níu af hverjum tíu krón­­um af opinberum rannsóknafjárveitingum séu bein framlög til háskóla og stofnana þá telur Landsfundur mikilvægt að auka enn bein framlög til stofnanna. Tryggja þarf að samkeppnissjóðir séu það veikir að þeir hafi ekki það  vogarafl sem til þarf. Fyrsta skrefið í þessari stefnumótun er að tryggja að bein framlög til rannsókna við HÍ verði þrisvar sinnu hærra en allir opinberir samkeppnissjóðir. Vonast er til að með því að tryggja að vísindamenn innan HÍ þurfi ekki að keppa við aðra vísindamenn á Íslandi muni þeir vaxa svo að gæðum að þeir nái að gera HÍ eð einum af 100 bestu vísindaháskólum í heimi.

Að lokum sýni ég ykkur graf sem sýnir þróun fjármögnunar í samkeppnisjóði Vísinda-  og tækniráðs (VTR) og beinna fjárframlega til rannsókna innan HÍ eins og það liggur fyrir samkvæmt loforðum menntamálaráðherra:

framlög til HI vs samkeppnissjodir


Fyrsta bloggfærsla

Þessi færsla er búin til af kerfinu þegar notandi er stofnaður. Henni má eyða eða breyta að vild.

Um bloggið

Vísindapólitík

Höfundur

Magnús Karl Magnússon
Magnús Karl Magnússon
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Stig-timaritsgrein
  • Stig-timaritsgrein
  • Stig-timaritsgrein
  • framlög til HI vs samkeppnissjodir
  • framlög til HI vs samkeppnissjodir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband